í flokknum: Dregyn, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Gufunesbær

Föstudaginn 6. september fór 30 manna hópur úr 8. bekk í Vættaskóla, ásamt starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar, í gistiferð og var förinni heitið á Selfoss. Þetta mun vera í fyrsta skiptið í ansi mörg ár sem að slík ferð er farin í byrjun skólaársins en markmið ferðarinnar var að hrista hópinn saman fyrir komandi skólaár og svo að sjálfsögðu bara að skemmta sér.

Lagt var af stað seinni part föstudags og komið var á áfangastað um kl. 18 en krakkarnir eyddu nóttinni í húsakynnum félagsmiðstöðvarinnar á Selfossi sem heitir Zelsíus. Fyrsta mál á dagskrá þegar að þangað var komið voru nokkrir hressandi hópeflisleikir. Leikirnir vöktu mikla lukku og voru starfsmenn nokkuð vissir um að hávaðamet hafi verið slegið í skæri-blað-steinn keppninni sem var hluti af hópeflinu. Eftir leikina var pizzaveisla og má með sanni segja að það hafi gefist vel meðal unglinganna, sú staðreynd svo sem ekki ný af nálinni. Kvöldinu var svo eytt á opnu húsi hjá félagsmiðstöðinni Zelsíus og nýttu krakkarnir tækifærið til þess að kynnast betur sín á milli og einnig til þess að kynnast krökkunum frá Selfossi. Eftir að húsið lokaði var vakað aðeins fram yfir miðnætti og síðan voru allir komnir í háttinn lauslega upp úr 1.

Seinni dagurinn hófst á morgunmat, smurðum rúnstykkjum og sætabrauði, ekki amalegt það. Því næst var rölt í sundlaugina á Selfossi. Þar var buslað og leikið í bland við góða afslöppun í pottunum. Eftir sundferðina var förinni heitið heim á leið og 30 ánægðir krakkar ásamt 3 þreyttum en glöðum starfsmönnum lentu upp úr hádegi við Vættaskóla-borgum. Frábær ferð að baki og næsta víst að farið verður aftur að ári liðnu.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt