Félagsmiðstöðvar Gufunesbæjar

Félagsmiðstöðin Dregyn í Vættaskóla, sími 695-5180

Félagsmiðstöðin Fjörgyn í Foldaskóla, sími 695-5182

Félagsmiðstöðin Púgyn í Kelduskóla, sími 695-5082

Félagsmiðstöðin Sigyn í Rimaskóla, sími 695-5186

Í Grafarvogi tók fyrsta félagsmiðstöðin, Fjörgyn, til starfa í Foldaskóla árið 1989 og Sigyn í Rimaskóla hóf starfsemi 1996. Nöfn þessara fyrstu félagsmiðstöðva í hverfinu voru sótt í goðafræðina en Fjörgyn er þar móðir Þórs sem var sonur Óðins en Sigyn er þar gyðja og eiginkona Loka. Haustið 1998 tók Frístundamiðstöðin Gufunesbær til starfa og samhliða hófst á hennar vegum félagsmiðstöðvastarf inni í öllum grunnskólum í Grafarvogi sem þá voru starfandi. Eftir því sem grunnskólunum í hverfinu fjölgaði þá bættust við fleiri félagsmiðstöðvar en með sameiningum skóla og tilfærslu unglinga úr Húsa- og Hamraskóla yfir í Foldaskóla hefur þeim fækkað aftur og nú starfa fjórar félagsmiðstöðvar í Grafarvogi. Þegar nýjum félagsmiðstöðvum var gefið nafn var haldið í hefðina og til urðu nokkurs konar orðskrípi sem höfðu sömu endingu (-gyn) og nöfn þeirra félagsmiðstöðva sem fyrir voru.

Félagsmiðstöðvar starfa samkvæmt Starfsskrá skrifstofu tómstundamála (ÍTR) sem kom út vorið 2007 og er megináherslan lögð á starf fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Starf fyrir börn á aldrinum 10-12 ára hefur þó verið að aukast í félagsmiðstöðvunum í Grafarvogi undanfarin ár. Í starfi félagsmiðstöðva er lögð áhersla á að þjálfa samskiptafærni, auka félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og efla samfélagslega virkni og þátttöku. Síðast en ekki síst er verið að taka þátt í starfi þar sem skýr afstaða er tekin gegn neyslu vímuefna og annarri neikvæðri hegðun. Barna- og unglingalýðræði er hugmyndafræðin sem starfið byggir á og tryggir áhrif barna og unglinga á starfið. Kosningar í miðstigsráð og unglingaráð eru í anda þessarar hugmyndafræði en mikilvægasta hlutverk ráðanna er að virkja sem flesta til þátttöku í starfinu ásamt því að standa fyrir og skipuleggja dagskrána.

Félagsmiðstöðvar Gufunesbæjar í Grafarvogi eru starfræktar, eins og áður hefur komið fram, inni í grunnskólunum og í hverri félagsmiðstöð starfa 4-5 starfsmenn í mismunandi stöðuhlutföllum. Margir starfsmenn hafa aflað sér menntunar á sviði uppeldis- og frístundastarfs en auk þess hafa þeir ólíkan bakgrunn og menntun þar sem slík fjölbreytni nýtist vel í starfinu.  Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Gufunesbær standa einnig fyrir sérsniðnum námskeiðum og þjálfun fyrir starfsmenn.


Félagsmiðstöðvar

Félagsmiðstöðvar


Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit