í flokknum: Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Gufunesbær, Höllin

Klettastökksnámskeið heppnaðist vel

Sólin skín á nokkurra metra háan foss einhversstaðar í Hvalfirði. Það er ágæt kyrrð, allt þangað til að hópur af unglingum úr Grafarvogi mætir á svæðið í sundfötum og tekur sig til að hoppa í vatnið úr allt að átta metra hæð, undir handleiðslu sérfræðinga, að sjálfsögðu.

Þetta var uppistaðan í klettastökksnámskeiði sem var á vegum Fjörgynjar í júlí síðastliðnum. Konni Gotta, starfsmaður Fjörgynjar og Hallarinnar sá um námskeiðið ásamt Jódísi, forstöðukonu Hallarinnar og Frikka sem kemur líka úr Höllinni. „Við vorum með tíu krakka í hópnum og fórum á hverjum degi að hoppa í vatn,“ segir Konni. „Bæði af fossum og klettum. Svo var hoppað í sjó einu sinni.“

Námskeiðið var frá 27. til 31. júlí. „Við byrjuðum á því að hjóla upp á Úlfarsfell og niður aftur, svo keyrðum við í Köldukvísl að hoppa. Þar er þriggja metra klettur. Svo fórum við í sund.“ Konni segir að það hafi strax myndast góður hópur við það. „Þeir voru alltaf svo mikið að peppa hvorn annan. Gaman að sjá hvað þetta var sterkur hópur.“

Konni var með jaðarklúbb í Fjörgyn í vetur þar sem þau meðal annars stunduðu klifur, fjallahjól, snjóbretti og margt fleira. „Ég ætlaði að vera með jaðarklúbb í sumar og krakkarnir spurðu mikið um það en þegar ég sagði að ég gæti verið með klettastökksnámskeið í staðinn voru allir mjög peppaðir.“

Níu metra stökk og sjósund

Vikan var fjölbreytt en hópurinn fór tvívegis á svæði á milli Kjósar og Hvalfjarðar. „Á þriðjudeginum fórum við í dal þar sem það er staður til að hoppa. Svo er hægt að ganga niður gil og finna átta metra háan klett.“ Þar tók Konni hópinn í kennslu um klettastökk. „Ég lét einn þeirra fara út í og mæla dýptina á vatninu, kenndi þeim að sjá hvar er í lagi að hoppa og hvar ekki.“

Á fimmtudeginum fóru þau svo í Svínadal í Kjós og hoppuðu úr sex metra háum foss. „Þá vorum við búin að redda blautbúningum sem við fengum lánaða frá Siglingaklúbbnum í Nauthólsvík. Vorum ekkert smá þakklát fyrir það. Í blautbúningunum gátu krakkarnir hoppað endalaust og æft sig í hlutum sem þau höfðu ekki þorað að æfa sig í án blautbúninga. Það var drullugaman.“ Eftir það fóru þau á Akranes í sjósund og slökuðu í nýju pottunum á Langasandi.

Á miðvikudeginum fóru þau í sjósund í Nauthólsvík. Þar er hægt að hoppa af klettum í flóði. „Þá tókum við líka svolítið langt sjósund, þau syntu frá klettinum og alveg að siglingaklúbbnum. Ekkert smá öflugt lið.“

Hæsta stökkið kom á lokadeginum. Þá hoppuðu allir af níu metra háum kletti ofan í Kleifarvatn. „Við vorum ennþá með blautbúninga sem var gott, vatnið er svolítið kalt þar. Svo grilluðum við og fórum í sund á Álftanesi.“

 

Ótrúleg samheldni

Krakkarnir voru mjög ánægð með vikuna og segir Konni þau hafa flest viljað lengra námskeið. „Það hjálpaði líka mikið að þau treystu manni alveg hundrað prósent. Ef ég sagði eitthvað þá var það bara þannig. Þau voru ekkert að fíflast uppi á kletti eða neitt svoleiðis.“

Hópurinn stóð líka vel saman þegar ótti greip um sig hjá einhverjum. „Ef það var einhver lofthræddur þá var enginn að hrauna yfir neinn. Þeir kölluðu bara ekki láta kvíðann stjórna þér, sem var alveg geðveikt.“

Klettastökkið er hægt á öðrum árstíðum ef blautbúningar eru fyrir hendi. „Ef það væri hægt að vera með eitthvað svona í vetur, jafnvel bara tvinna það inn í jaðarklúbbinn að vera með svona klettastökk, þá væri það algjör snilld.“

 

Arnór Steinn Ívarsson

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt