í flokknum: Ævintýraland, Brosbær, Frístundaheimili (6-9ára), Galdraslóð, Hvergiland, Kastali, Regnbogaland, Simbað sæfari, Tígrisbær

Korpuskóli lokaði í vor og nokkrar breytingar urðu á skóla- og frístundastarfi. Frístundaheimilið Ævintýraland í Korpuskóla sameinaðist Brosbæ í Engjaskóla og Galdraslóð í Víkurskóla sameinaðist Hvergilandi í Borgaskóla. Við ræddum við forstöðumenn frístundaheimilanna tveggja til að sjá hvernig þeim gengur með breytingarnar.

Breytingar í Brosbæ

María Una Óladóttir er forstöðumaður Brosbæjar í Engjaskóla. Brosbær sameinaðist Ævintýralandi sem var í Korpuskóla. „Helstu breytingar eru að búið er að skipta starfinu í tvennt, við erum með 1. og 2. bekkjarstarf og svo 3. og 4. bekkjarstarf,“ segir María Una. Starfið var ekki aðskilið svoleiðis áður en það hefur fjölgað í hópnum.

Brosbær fékk líka rýmra pláss og talar María um gott samstarf við skólann. „Við fengum tvö góð rými sem við nýtum fyrir 3. og 4. bekk. Í heildina hafa þessar breytingar verið fínar fyrir okkur.“

Foreldrar ánægðir

María segir breytingarnar góðar fyrir mörg börn félagslega séð. „Auðvitað eru erfiðleikar fyrir sum börn. En þetta er allt saman enn í þróun.“

„Foreldrar virðast vera ánægðir með Brosbæ, höfum allavega ekki heyrt neitt annað,“ heldur hún áfram.  „Ég veit að foreldrar voru ekki ánægðir með fyrirhugaðar breytingar en við höfum fengið póst frá nokkrum foreldrum sem hafa lýst yfir ánægju sinni með starfið okkar.“

Hún lýsir góðu gengi enn sem komið er þrátt fyrir að það hafi verið krefjandi. „Það þarf gott skipulag í kringum svona og góða starfsmenn,“ segir María. „Við erum mjög heppin með starfsmenn, þau komur nokkur úr Ævintýralandi og það skiptir gífurlega miklu máli, að það séu starfsmenn sem þekkja börnin sem koma yfir.“

Erfitt með pláss í Hvergilandi

Ásgerður Ólafsdóttir er forstöðumaður Hvergilands, en þar sameinaðist frístundaheimilið Galdraslóð sem var í Víkurskóla. Hún segir starfið ganga ágætlega til að byrja með. „Ég segi ágætlega út af því að við erum mjög vanur starfsmannahópur, bæði vanur hópur sem var með mér í Víkurskóla og hópur sem var  að vinna hér áður, allt fólk með reynslu,“ segir Ásgerður. „Núna er kominn október og við erum ekki ennþá búin að finna taktinn.“

Plássið sem Hvergiland hefur er ekki nóg og enn í vinnslu. „Mér finnst ekki vera mikill skilningur gagnvart okkur,“ segir hún. „Maður þarf alltaf aðeins að berjast fyrir frístundastarfinu, í sambandi við rými og svona. Það eru búnir að vera samráðshópar fyrir breytinguna og auðvitað eru breytingar alltaf skrýtnar en maður gekk samt einhvern veginn út frá því að í sambandi við rými yrði allt bara tilbúið.

Óróleiki í krökkum en sáttir foreldrar

Krakkarnir eru að takast ágætlega á við breytinguna að mati Ásgerðar en það er samt óróleiki í hópnum. Það er engin festa í því hvaða

aðstöðu Hvergiland hefur fyrir börnin, það breytist dag frá degi. „Við náum engum takti,“ segir Ásgerður.

„Ég upplifi rosalega mikinn hegðunarvanda og óróleika. Líka hjá börnum sem eru kannski með greiningar sem gekk vel á síðasta skólaári en gengur verr núna.“

Upp á móti hafa þau ekki fengið neinar stórar kvartanir frá foreldrum. „Það er ekki nema að þau eru að spyrja hvað sé í gangi og hvort það verði ekki gert eitthvað meira fyrir okkur. Annars fáum við pósta frá foreldrum sem lýsa því að barnið þeirra er ánægt hjá okkur og að við séum að standa okkur vel. Það er eitthvað sem maður heldur vel í.“

Þakklát starfsfólkinu sínu

Ásgerður segir að starfsfólkið hennar eigi stórt hrós skilið. „Þó við séum að upplifa þreytu og bugun þá náum við að halda góðum anda,” segir hún. „Ég gæti þetta hreinlega ekki án þeirra.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt