í flokknum: Dregyn, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Fjörgyn, Gufunesbær, Púgyn, Sigyn, Vígyn

Þriðja bylgja faraldursins er enn í fullum gangi og ýmsar takmarkanir enn í gildi. Sem betur fer þurfa grunnskólar ekki að takmarka starfsemi sína of mikið, en í fyrstu bylgjunni var raunin önnur. Margir grunnskólanemar gátu ekki mætt í skólann nema í nokkrar klukkustundir á viku og félagsmiðstöðvar neyddust til að vera með rafrænar opnanir.

Hvernig er staðan í félagsmiðstöðvunum í dag og hvernig eru krakkarnir að takast á við þetta allt saman? Við spjölluðum við forstöðumenn félagsmiðstöðvanna í Gufunesbæ um málið.

Gestabann og grímur á daginn

Ólíkt stöðunni í vor þá starfa félagsmiðstöðvar að mestu eins og venjulega. Það er gestabann í öllum félagsmiðstöðvunum og íþróttasalurinn er lokaður sem er í takt við reglur skólanna.

Íþróttasalurinn verður því miður að bíða

Áslaug, forstöðumaður í Fjörgyn, segir flest venjulegt fyrir utan að ákveðið var að fresta gistinótt sem átti að vera í haust. „Annars erum við bara að sleppa baksturs- og matreiðsluviðburðum. Þegar við erum með snakk í boði þá eru allir með sína eigin skál og við skömmtum í þær með hönskum og grímum.“

„Á dagtíma erum við með skólanum í því að vera með grímur á almannafæri,“ segir Njörður, forstöðumaður í Sigyn. „Annars hugum við bara að sóttvörnum, sótthreinsum áhöld og allt eftir lokun.“

Stefán í Vígyn segir flest vera eins og venjulega nema að fresta þurfti einum 10-12 ára hitting, því þar hefðu tveir skólar hist.

Góð mæting en mismunandi stemning

Það er svipað hljóð í krökkum félagsmiðstöðvana. „Mæting er rosalega fín og ég held að það sé bara allstaðar,“ segir Njörður. „Það er lítið að gera fyrir þau á kvöldin út af því að það eru engar æfingar. Það er bara mjög gaman að hafa þennan fjölda og meira stuð.“‘

Stefán segir smá pirring vera í krökkunum vegna þess að þau geta ekki farið í íþróttasalinn. „Það er alveg pínu æsingur á kvöldin. Annars er ágætt hljóð í þeim.“

Áslaug segir krakkana ekki endilega nógu meðvituð um eigin smitvarnir. „Þau eru bara hress, sem er gott, en þau eru ekki alveg endilega að átta sig á hvað þau þurfa að gera. Við starfsfólkið erum bara búin að skerpa meira á öllum smitvörnum.“

Njörður lýsir ánægju sinni að hafa meira fjör í félagsmiðstöðinni. „Það er smá gott í þessu alheimshallæri. Ég er ótrúlega feginn að geta verið með opið í staðinn fyrir að vera með rafræna hittinga.“

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt