Hvort maður er að hugsa um heildina eða persónuna

 í flokknum: Dregyn, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Fjörgyn, Gufunesbær, Höllin, Púgyn, Sigyn, Vígyn

Á síðustu vikum hafa sóttvarnarreglur innan grunnskóla breyst mikið. Á sama tíma hefur lítið verið heyrt í skoðunum barna og ungmenna, þó að reglurnar hafa mest áhrif á þau. Þess vegna er upplagt að heyra hvernig ungmennum gengur í þessari þriðju bylgju og hvaða skoðanir þau hafa á málinu. Ég spjallaði við nokkra nemendur í Fjörgyn í Foldaskóla, Vígyn í Víkurskóla og Sigyn í Rimaskóla.

Verst að komast ekki á æfingar

Félagmiðstöðvar eru hægt og rólega að opna eftir erfitt tímabil.

Þau tala öll um að ástandið núna sé betra en í vor. „Ég man að fyrri bylgjan var svakaleg,“ segir Embla María Möller Atladóttir, nemandi í tíunda bekk í Víkurskóla. „Þá náði maður alveg að snúa sólarhringnum við.“

Þegar þessi grein er skrifuð mæta þau daglega í skólann og fá að stunda æfingar. „Við vorum náttúrulega búin að fara í gegnum eina bylgju, þannig að maður var bara orðinn vanur þessu,“ segir Auður Árnadóttir, í tíunda bekk í Foldaskóla. „Ég er ekkert mikið fyrir að hreyfa mig fyrir utan æfingar þannig að mér fannst geðveikt erfitt að koma mér í gang.“

Kolbeinn Kári Jónsson, í níunda bekk í Foldaskóla, er á sama máli. „Þegar það voru engar æfingar þá var ég rosa mikið heima. Vinirnir meira í tölvunni en vanalega þannig að þeir nenna ekkert út.“

Betra að mæta í skólann?

Heiðrún Katla Haraldsdóttir og Alfreð Máni Ingason, bæði í níunda bekk í Víkurskóla segja stöðuna auðveldari. „Þetta hefur verið auðveldasta bylgjan af öllum þremur,“ segir Heiðrún Katla. „Það er mikið af breytingum að koma og alltaf að breytast á milli vikna. Þó þetta sé auðvelt þá er þetta mjög öðruvísi.“

Alfreð segir að stundatöflurnar séu síbreytandi og það tvær stundatöflur hafi eitt sinn komið út og enginn vissi hver var sú rétta.

En finnst þeim betra að geta mætt?

„Já og nei, betra að hitta fólk af því að maður saknar þess alltaf,“ segir Alfreð Máni. „Það er líka léttara að fá hjálp ef maður mætir í skólann. En auðvitað væri betra ef maður væri bara að þessu heima. Þá eru minni líkur á smiti.“

Heiðrún er sammála. „Fyrir mann sjálfan er betra að mæta, en þegar maður er að hugsa um smit og samfélagið og fólkið þá er kannski betra að vera heima. Fer eftir því hvort maður er að hugsa um heildina eða persónuna.“

Embla María tekur undir þetta. „Ég hef tekið eftir því að í þessari bylgju, það að fá að mæta í skólann þó það sé bara nokkrir tímar á dag, hefur breytt ógeðslega miklu. Ég tek eftir skólanum betur og líður almennt betur en í fyrri bylgjunni. Leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í félagsmiðstöðinni eins mikið og í fyrra, en samt er þetta betra en fyrir sumarið.“

„Við getum alveg fengið COVID eins og krakkar sem eru bara einu ári eldri en við.“

Þeim finnst mjög skrýtið að geta hitt fullt af krökkum á æfingu en mega samt ekki hittast á milli bekkja.

Þau segja að reglurnar og framsetningin séu óskýrar, sérstaklega til að byrja með. „Ekki eins skýrt og maður myndi vilja hafa það,“ segir Auður. „Til dæmis núna, ég má mæta á æfingar en ég má ekki taka af mér grímuna í skólanum. Þetta var allt svo mikil u-beygja á nokkrum vikum og við skildum ekki neitt.“

Heiðrún tekur í sama streng. „Mikið af breytingum á milli vikna sem er ruglandi. Þegar allt kemur inn í einu er erfitt að greina á milli hvað er nýtt, hvað er gamalt og hvað er að koma næst.“

Auður minntist sérstaklega á misræmi á milli grunn- og menntaskóla. „Mér fannst mjög skrýtið að það var ekki löngu búið að gera eitthvað með skólann. Menntaskólarnir voru löngu búnir að breyta þar, busar fengu ekki að hitta neinn í bekknum sínum. Á sama tíma hjá okkur voru bara tvö hundruð krakkar í hrúgu sem ég skil ekki neitt hvernig mátti. Við getum alveg fengið COVID eins og krakkar sem eru bara einu ári eldri en við.“

„Vantar að fólk skilji okkar sjónarhorn betur“

En vantar álit ungmenna á aðgerðum sem miða að grunnskólum?

Já, segja þau öll. „Það er ekki hver sem er sem ætti að hafa skoðun á því, til dæmis eru margir sem halda að við séum ekki smitberar,“ segir Embla María. „Það væri fínt ef einhver myndi heyra hvernig reglurnar ættu að vera og svo leyfa okkur að segja eitthvað.“

„Skólinn er bara allt öðruvísi,“ segir Kolbeinn. „Þetta hefur mest áhrif á þau sem eru í skóla.“

„Þau sem eru að gera reglurnar eru náttúrulega fullorðið fólk, sérfræðingarnir. En það vantar skoðanir unga fólksins af því að þau eru í skóla og þau vita hvernig áhrif þetta hefur á þau, en fullorðna fólkið væntanlega ekki,“ segir Heiðrún. Hún segir einnig að reglurnar hafi áhrif á allt lífið, ekki bara skólann. „Félagslífið, tómstundir, allt. Það er allt búið að breytast þannig að það vantar að fólk skilji okkar sjónarhorn betur.“

Embla María bætir við að fagfólkið eigi að taka lokaákvörðun en er á sama máli og Heiðrún. „Mér finnst að ef við gætum sagt eitthvað, hvernig þetta væri þægilegast fyrir okkur, og það væri verið að vinna í kringum það, það yrði ábyggilega snjallast.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt