í flokknum: Ævintýraland, Brosbær, Dregyn, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Fjörgyn, Frístundaheimili (6-9ára), Galdraslóð, Gufunesbær, Höllin, Hvergiland, Kastali, Púgyn, Regnbogaland, Sigyn, Simbað sæfari, Tígrisbær, Vígyn

Nýjasti ratleikur Miðstöðvar Útivistar og Útináms er í fullu fjöri á Gufunesbæjarsvæðinu. Leikurinn heitir Neysluveislan og er fyrir unglingastig grunnskóla. Þema leiksins er umhverfisvitund og þrautirnar snúast um að sýna þátttakendum hvaða áhrif neysla hefur á jörðina. Stína Bang verkefnisstjóri MÚÚ sagði okkur betur frá leiknum og hugmyndinni á bak við hann.

Hvaðan ætli þessi föt komi?

“Rauði þráðurinn í verkefninu, og rót þessa stóra hnattræna vanda, er ofneysla. Við erum að reyna að láta krakkana samsvara sig þeirri hugmynd með því að tengja þau við hluti sem þau þekkja og láta þau átta sig á hversu mikið vald og áhrif þau hafa í raun og veru sem neytendur. Við neytendur stýrum eftirspurn. Allt efni er að sjálfsögðu kynnt með einum eða öðrum hætti ásamt lausnum, um hvað við getum gert.”

Stína segir það hafa verið erfitt að koma upplýsingunum til skila án þess að vera neikvæður og svartsýnn. “Þess vegna reyndum við að hafa samanburð sem þau tengja við og höfðum þetta lausnamiðað. Ekki bara að þetta sé klúður og við getum ekkert gert. Við erum að flokka og skila en í rauninni erum við bara að finna nýjar leiðir til að framleiða sama draslið. Það er vandamálið, við erum ennþá að framleiða of mikið af drasli.”

Leikurinn er fjölbreyttur og með boðskap sem á við alla – ekki bara ungmenni.

Verður þetta hafið árið 2050?

Þrautir um sjálfbærni og vistspor

Í ratleiknum þarf að leysa þrautir á tíu stöðvum. Þátttakendur nota forritið Action Bound, sem lesendur gufunes.is ættu nú að þekkja vel til, til að bæði finna þrautirnar með GPS hnitum og til að fá vísbendingar um lausn.

Hver og ein þraut kennir þátttakendum á hugtök eins og vistspor og sjálfbærni. Ég fylgdist með áttunda bekk Breiðholtsskóla leysa þrautirnar á sólríkum föstudagsmorgni. Þær eru fjölbreyttar og settar fram á skemmtilegan og fræðandi hátt.

Í einni þrautinni þarf að veiða fimm fiska úr stóru kari, þar sem “vatnið” eru plastflöskur, sem er eftirlíking af sjónum árið 2050. Talið er að jafnmikið verði af fiskum og plasti í sjónum eftir 30 ár ef plastframleiðsla verður með svipuðum hætti og nú. Þátttakendur þurfa svo að bera kennsl á fiskana fimm og gera stutt myndband. “Þetta er geðveikt, smá erfitt en samt,” sagði einn þátttakandi eftir að hafa veitt í nokkrar mínútur.

Það eru ekki bara ungmenni sem þurfa að þekkja plastmagn í hreinlætisvörum

Til að kenna þeim um alla þá miklu vinnu sem fer í að sækja góðmálma úr jörðinni, þá þurfa þátttakendur að bókstaflega grafa eftir gulli, silfri og bronsi í þar til gerðum “námum” á blakvellinum. “Góðmálmar eru í flestum raftækjum, og það er bara pínulítið stykki í hverjum síma, algjört brotabrot, en til að ná í það þarf að sprengja burt alveg tonn af bergi,” segir Stína. “Við vildum sýna fram á hversu mikið liggur á bak við hvern einasta hlut. Lokaafurðin, í þessu tilfelli síminn sjálfur, er bara toppurinn af ísjakanum. Gríðarlega mikil vinna, jarðrask, mengun og notkun óafturkræfra auðlinda liggja þarna að baki.”

Í öðrum þrautum læra þátttakendur á endurvinnslumerkingar á mismunandi plastumbúðum, fatamerkingar og um plastagnir í hreinlætisvörum.

Krakkarnir voru sammála um að þrautirnar voru nokkuð skemmtilegar. “Þetta var ekkert of flókið,” sagði einn þátttakandi. “Sumar voru flóknar, sumar ekki. En þetta var bara frekar gaman.”

Ekki bara fyrir ungmenni

Í lok leiks var öllum hópnum boðið í lundinn til að fá veigar og drykk. Þau fengu heitt kakó hitað í katli yfir opnum eldi og svo lummurnar sem þau blönduðu sem hluta af einni þrautinni. Þar var afgangs hafragrautur notaður ásamt þurrefnum og mjólk. “Þetta var f***** gott,” sagði einn þátttakandinn. Þar höfum við það.

Lummur úr afgangs hafragraut slógu algjörlega í gegn

Krakkarnir voru sammála um að þrautirnar voru nokkuð skemmtilegar. Það var gaman að fylgjast með þeim fara í gegnum þrautirnar. Fyrst um sinn var mikið grín og mikill æsingur, en um leið og þrautirnar voru byrjaðar fóru krakkarnir að vinna vel saman.

Stína segir að þrátt fyrir gott gengi í að keyra leikinn fyrir unglingastig vonar hún að geta notað leikinn frekar. “Við höfum fengið kennara á starfsdegi til okkar í leikinn og mér fannst það ganga vel. Það er svo margt í þessu sem á við alla, ekki bara ungu kynslóðina.” Hún segir boðskap leiksins og upplýsingarnar sem verið er að miðla vera mikilvægar.

 

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt